Eldir borgarastarfið þriðjudaginn 20. janúar hefst með kyrrðarstund kl. 12.00 og hefðbundinni dagskrá. Gestur dagsins er Sigurður H. Pétursson rithöfundur áður héraðsdýralæknir í A-Hún frá 1973 til 2000. Sigurður les upp úr bók sinni Smalinn.
Útgáfan sætir tíðindum þar sem höfundur fæddist árið 1894 og mun hafa skrifað bókina 1930-1940. Sagan er fyrst nú aðgengileg almenningi. Höfundur var Húnvetningur af svokallaðri Grafarætt, frá Gröf í Víðidal. Hann bjó lengst af á Blönduósi og Fremstagili í Langadal og stundaði verslunarstörf á Blönduósi. Á árunum 1905-1911 rak hann verslun og útgerð á Siglufirði, Verslun Sigurðar Helga.
Smalinn er skáldsaga með teikningum eftir húnvetnskan listamann, Guðráð B. Jóhannsson á Beinakeldu. Hún gerist undir lok 19. aldar og fjallar um 10-12 ára tímabil í ævi Magga sem er sonur ekkju í litlu þorpi á Norðurlandi. Sagan hefst þegar Maggi er 8 ára. Hann fer að Hóli sem smali þegar hann er 10 ára og er þar í 2-3 sumur. Þá fer hann í nám til séra Eyvindar á Bakka og undirbýr sig undir Latínuskólann. Hann fer á sjóinn á hákarlaskútu á Siglufirði. Sjórinn heillar hann meira en Latínuskólinn. Hann lendir í lífsháska nokkrum sinnum, bæði sem smali og á sjónum. Hann er úrræðagóður og ósmeikur og sá eiginleiki bjargar bæði honum og fleirum oftar en einu sinni.
Einlægni, heiðarleiki og þrautseigja einkenna Magga. Sagan er vel skrifuð og á sannarlega erindi til fólks nú í dag. Hún lýsir vel lífinu á þessum tíma, er spennandi og hver viðburðurinn rekur annan.