Trio Bruun frá Kaupmannahöfn er á tónleikaferð um landið og heldur tónleika í Fella- og Hólakirkju 31.júlí nk kl. 20.00.
Tríóið skipa þau Hetna Regitze Bruun, sópransöngkona, Steffen Bruun, bassasöngvari og Philip Schmidt-Madsen, orgelleikari.
Efnisskráin er afar fjölbreytt og er uppistaða hennar rómantísk söngverk  í bland við dönsk sönglög og orgelverk.

Aðgangseyrir er kr. 1.500
——-
Um flytjendur:

Hetna Regitze Bruun fæddist í Danmörku og stundaði nám við Konunglega danska tónlistar-háskólann í Kaupmannahöfn og síðar í Konunglega danska tónlistarháskólanum í Árósum, þaðan sem hún lauk einsöngsprófi árið 2008. Hetna hefur sungið einsöngstónleika, ljóðatónleika og tekið þátt í Oratorium víða í Evrópu. Hún hefur starfað með hljómsveitar-stjórum á borð við Thomas Dausgaard og Stefan Solyom. Hún hefur komið fram í Konung-legu óperunni í Kaupmannahöfn ,,Takkelloftet” sem og í öðrum óperuhúsum í Danmörku. Árið 2008 lék Hetna Valkyrju í bresku kvikmyndinni Feature, sem leikstýrt var af Shezad Dawood. Hún hefur einnig átt velgengni að fagna í verkefnunum Yellow, DJ Messiaen og Moya Reloaded. Að auki syngur Hetna með “Stand-Up-Opera” sem staðsett er í Kaupmannahöfn. Hljóðritanir Hetnu, ásamt Dönsku sinfóníuhljómsveitinni, á tónlist Rued Langgaard, Music of the Spheres vann til verðlauna hjá danska útvarpinu og voru einnig tilnefndar til verðlauna hjá tímaritinu BBC Music Magazine Award 2011.

Sem félagi í hinu virta Bruun Hyldig Duo, hefur hún komið fram í tónleikahöllum víða um lönd og var tilnefnd til verðlauna fyrir hljóðritun sína af Messiaens ,,Harawi” fyrir NAXOS af danska útvarpinu.

——

Steffen Bruun útskrifaðist árið 2005 frá Konunglega danska tónlistarháskólanum og stundaði síðar framhaldsnám í óperusöng við tónlistarháskólann í Sidney. Fljótlega eftir námslok þreytti hann frumraun sína á sviði sem keisarinn í Næturgala Stravinskijs í óperunni á Fjóni. Skömmu síðar söng hann Framkvæmdarstjórann í fyrstu uppfærslu af Han, Den, Det á Takkelloftet í Konunglegu dönsku óperunni. Steffen hefur einnig sungið Sarastro í Töfraflautu Mozarts í sumaróperunni í Nyborg og Caronte og Plutone í Monteverdis L’Orfeo í Hofteatret í Kaupmannahöfn.

Steffen hefur m.a. sungið í Jóhannesarpassíu, Jólaóratoríu og H-moll messu Bachs, Requiem eftir Mozart, Requiem eftir Fauré og Requiem eftir Schumann, Messías og Ísrael í Egyptalandi eftir Händel, L’Enfance du Christ eftir Berlioz’, C-dúr messu Beethovens og svo mætti lengi telja. Hann hefur starfað með hljómsveitum á borð við Dönsku sinfóníuhljómsveitina, Dönsku kammersveitina, Concerto Copenhagen, Sinfóníuhljómsveitunum í Malmö, Odense, Álaborg og suður Jótlandi.

——-

Philip Schmidt-Madsen lauk meistaranámi í kirkjutónlist frá Konunglega tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn, þar sem hann naut handleiðslu prof. Bine Bryndorf, árið 2007 með hæstu einkunn. Á árunum 2007-2009 stundaði hann nám í kór- og hljómsveitarstjórn við Listaháskólann í Bremen. Frá árinu 2010 hefur Philip stundað nám í einleikaradeild Konunglega danska tónlistarháskólans undir leiðsögn prof. Hans Fagius.
Árið  2011 vann Philip 1. verðlaun í alþjóðlegu Carl Nielsen orgelkeppninni í Odense og var þar með fyrsti Daninn til að hljóta þau verðlaun í 19. ár. Hann hefur haldið fjölda tónleika í Danmörku og Evrópu, bæði sem einleikari og með kórum og hljómsveitum. Einnig kemur hann fram með dönsku útvarpssinfóníettunni og konunglegu dönsku kapelluhljómsveitinni og spilar reglulega í útvarpi og sjónvarpi. Philip hlaut styrk frá hinum virta Léonie Sonnings sjóði árið 2012.
Frá árinu 2009 hefur Philip starfað sem framkvæmdastjóri Sankt Annæ Pigekor. Hann er einnig listrænn stjórnandi og stjórnandi kammersveitarinnar Pro Musica Copenhagen.