Listasmiðjan Litróf verðlaunuð.
Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins voru afhent í gær við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu. Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson afhenti verðlaunin.
Samfélagsverðlaunin eru veitt í fjórum flokkum en auk þeirra voru veitt heiðursverðlaun en að þessu sinni hlaut Jenna Jensdóttir heiðursverðlaun fyrir farsælan kennsluferil og afkastamikil barnabókaskrif í áratugi. Vel á fjórða hundrað tilnefninga bárust frá lesendum Fréttablaðsins en markmið Samfélagsverðlaunanna eru að beina sjónum að þeim góðu verkum sem unnin eru í samfélaginu.
Verðlaun í flokknum Kynslóð til Kynslóðar fékk Jón Stefánsson en tónlistaruppeldi Jóns í Langholtskirkju hefur opnað heim tónlistar fyrir fjöldamörgum börnum og unglingum.
Listasmiðjan Litróf frá Fella- og Hólakirkju hlaut verðlaun í flokknum Til atlögu gegn fordómum fyrir að vinna að vináttu barna af erlendum uppruna og íslenskra barna með því að stefna þeim saman í leik og listum.
Listasmiðjan Litróf hefur starfað frá árinu 2007 og í dag eru um 70 stúlkur skráðar í listasmiðjuna Litróf. Nafnið „Litróf“ vísar til fjölbreytileika mannlífsins. Yngstu þátttakendur eru 9 ára en elstu eru á 16 aldursári. Þátttakendur eru íslensk börn og börn innflytjenda. Helstu áhersluatriði listasmiðjunnar eru á sviði tónlistar, dans, listrænnar hreyfingar og annarrar listsköpunar. Börnum er boðin þátttaka þeim að kostnaðarlausu. Markmið þessa starfs er að skapa jákvæðan vettvang fyrir börn til að koma saman til þroskandi verkefna og njóta samveru hvert við annað, brjóta niður múra fordóma og einbeita sér að listsköpun í góðu umhverfi undir stjórn fagfólks kirkjunnar. Í þessu er fólgið mikið forvarnarstarf og er öllum heimil þátttaka í þessu starfi. Það er jafnframt markmið listasmiðjunnar Litrófs að styrkja sjálfsmynd þátttakenda um leið og boðið er upp á þroskandi iðju fyrir börn og unglinga sem nýtist þeim síðar á lífsleiðinni. Vikulegar æfingar eru með þátttakendum og fara þær fram í kirkjunni. Auk þess er farið út fyrir borgina í æfingabúðir 1-2 helgar á vetri. Þess er gætt að halda góðum aga og reglu og sýna börnunum hvatningu og umhyggju. Mikill metnaður er lagður í starf listasmiðjunnar og m.a. var gefinn út geisladiskur með Litrófinu. Öll lögin á diskinum eru íslensk, frumsamin jólalög þar sem fagmennska var höfð í fyrirrúmi. Geisladiskurinn var tekinn upp að mestu í Fella- og Hólakirkju og var undirleikur, tónlistarflutningur og upptaka í höndum íslenskra tónlistarmanna og tónlistarmanna starfandi hér á landi.Hægt er að kaupa geisladiskinn í Kirkjuhúsinu og í Fella- og Hólakirkju.
Listasmiðjan Litróf er vaxandi starf innan Fella- og Hólakirkju. Stjórnandi Litrófsins er Ragnhildur Ásgeirsdóttir, djákni en undirleik annast Guðný Einarsdóttir