MISSA VOTIVA eftir Jan Dismas Zelenka, 23. mars 2011 í Fella- og Hólakirkju
Glæsilegt barokkverk frumflutt á Íslandi
Söngsveitin Fílharmónía flytur á vortónleikum sínum barokkverkið Missa votiva, eftir Jan Dismas Zelenka, með Bachsveitinni í Skálholti. Einsöngvarar á tónleikunum eru Marta Guðrún Halldórsdóttir, Jóhanna Ósk Valsdóttir, Gissur Páll Gissurarson og Ágúst Ólafsson . Stjórnandi er Magnús Ragnarsson.
Zelenka var fæddur 1679 í Bæheimi (núv. Tékklandi) en starfaði í Dresden, þar sem hann lést 1745. Hann var þannig samtímamaður Bach og Handel, en naut engrar viðlíka hylli meðan hann lifði. Það var ekki fyrr en um miðja tuttugustu öld að stórbrotin tónverk Zelenka voru enduruppgötvuð, og þykja nú meðal helstu perla barokktímans. Zelenka var á margan hátt framúrstefnulegur og djarfur í tónlistarsköpun sinni, verk hans bera einkenni barokktímans en sumt minnir á seinni tíma tónskáld, svo sem Mozart og Schubert. Hann vefur saman hljómsveit og kór með glæsilegum hætti og var ófeiminn við að brjóta upp formfestu barokkhefðarinnar.
Messan hljómar nú í fyrsta sinn á Íslandi. Missa Votiva er eitt lengsta, erfiðasta og persónulegasta verk meistarans, Zelenka, og sérlega fjölbreytt og krefjandi. Söngsveitin er sérlega stolt af því að kynna verkið fyrir íslenskum áheyrendum. Bachsveitin í Skálholti er af góðu kunn og leikur á barokkhljóðfæri sem líkust þeim sem notuð voru á upprunatíma barokkverka.
Verið innilega velkomin á frábæra tónleika. Verð er 3500 krónur.