Næsta sunnudag er guðsþjónusta kl.11. Prestur sr. Svavar Stefánsson. Kór kirkjunnar leiðir almennan safnaðarsöng undir stjórn Guðnýjar Einarsdóttur kantors. Sunnudagaskóli á sama tíma í umsjá Heiðrúnar Guðvarðardóttur og Ragnhildar Ásgeirsdóttur ,, Vinastund”. Allir taka með sér vini sína í sunnudagaskólann. Mikill söngur og fjör. Kirkjuverður og meðhjálpari er Kristín Ingólfsdóttir. Verið innilega velkomin.
Guðspjall næsta sunnudags er úr Matt 3.13-17
Þá kom Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!“
Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir honum.
En þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“