Hjónin David Schlaffke organisti frá Þýskalandi og Mariya Semotyuk flautuleikari frá Úkraínu verða flytjendur á tónleikum í Fella- og Hólakirkju fimmtudagskvöldið 16. júlí kl. 20. Þau hjónin hafa bæði unnið til verðlauna fyrir tónlistarflutning, haldið fjölda tónleika víða um lönd og hlotið mikið hrós fyrir vandaðan leik. Á efnisskránni verða mestmegnis rómantísk verk eftir þýsk tónskáld m.a. Sigfrid Karg-Elert, August Gottfried Ritter og Josef Gabriel Rheinberger en einnig verða flutt verk eftir J.S. Bach.
David Schlaffke fæddist í Mühlhausen í Þýskalandi. Þar stundaði hann tónlistarnám áður en hann hélt til Leipzig þar sem hann lagði stund á kirkjutónlistarnám með prófessor Arvid Gast sem aðalkennara. David Schlaffke hlaut styrk til áframhaldandi náms hjá prófessor Hans Fagius í Kaupmannahöfn og lauk einleikaraprófi frá Konunglega Tónlistarháskólanum þar í borg árið 2006. Hann hefur notið leiðsagnar margra af þekktustu orgelleikurum samtímans, t.d. Olivier Latry, Michel Bouvard, Ewald Kooiman, og Michael Radulescu. Einnig hefur hann haldið tónleika vítt og breitt um Þýskaland og í mörgum af hinum Evrópulöndunum. Árið 2007 hlaut David Schlaffke önnur verðlaun í alþjóðlegu „Johann Sebastian Bach“ orgelkeppninni í Arnstadt í Þýskalandi.
Mariya Semotyuk fæddist árið 1982 í Lviv í Úkraínu. Hún hóf tónlistarnám sitt í heimabæ sínum og þegar á unga aldri vakti hún athygli sem einleikari og vann til fjölda verðlauna. Síðar lá leið hennar til Leipzig í Þýskalandi þar sem hún lagði stund á flautunám hjá m.a. Irmela Boßler. Þar sérhæfði hún sig í impróvisasjón og túlkun nútímatónlistar. Hún lauk einleikaraprófi frá Tónlistarháskólanum í Karsruhe þar sem aðalkennari hennar var prófessor Renate Greiss-Armin. Hún hefur komið fram víða um lönd og spilað með ýmsum hljómsveitum t.d. „Junge Deutsche Philharmonie“, the Lucerne Festival Academy, var aðal piccolo-flautuleikari í Staatskapelle Halle og einnig kemur hún reglulega fram sem einleikari og með smærri kammermúsíkhópum. Hún er nú flautuleikari í Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam.
Þetta verða þriðju tónleikar raðarinnar Sumartónar í Elliðaárdal sem haldin er í fyrsta skipti í Fella- og Hólakirkju í sumar en kirkjan kjörinn staður til að heimsækja á fallegu sumarkvöldi.
Allar nánari upplýsingar um tónleikana og flytjendur þeirra er að finna á heimasíðu tónleikaraðarinnar: http://sumartonar.wordpress.com